Baotou-flugvöllurinn í Mongólíu, sem tilheyrir Kína, var lokað í um klukkustund í dag eftir að dularfull ljós sáust á himni í kringum flugvöllinn.
Þrjár flugvélar sem voru að koma frá Shanghai og Peking þurftu að hringsóla yfir flugvellinum í þessa klukkustund og fengu að lenda þegar starfsmönnum flugvallarins var ljóst að engin hætta stafaði af ljósunum. Þá var tveimur öðrum flugvélum beint á annan flugvöll.
Kínverskir fjölmiðlar tala um að þarna hafi sést til fljúgandi furðuhluts en myndband náðist af sérkennilegum ljósum á himnum yfir flugvellinum.
Myndbandið er þó sérstaklega lélegt eins og oft vill verða þegar áhugamenn festa meint geimskip á filmu. Þar sjást torkennileg ljós.
Það vekur hinsvegar athygli að þetta er í annað skiptið á hálfu ári sem flugvelli í Kína er lokað vegna óútskýrðra ljósa á himnum. Hitt skiptið var fyrir um hálfu ári síðan en þá var Xiaoshan-flugvellinum í borginni Hangzhou lokað.
Meðfylgjandi mynd er af ljósinu sem sást sveima yfir og nálægt flugvellinum í fyrra skiptið.
Alls hafa átta tilfelli um fljúgandi furðuhlutir komist í fjölmiðla í Kína á árinu.
Samsæriskenningarsmiðir eru væntanlega iðnir við kolann. En í fyrra tilfellinu var talið að um einhverskonar tilraun yfirvalda hefði verið að ræða en kínversk stjórnvöld hafa ekki viljað staðfesta þá ágætu kenningu.
Fyrir áhugasama er hægt að skoða myndbandið hér.
Heimild: Vísir, 06. okt. 2010
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: