Kötturinn Óskar er enginn venjulegur kisi. Hann býr á hjúkrunarheimili í Providence á Rhode Island í Bandaríkjunum. Nánast í hvert sinn sem hann sést hjúfra sig upp að sjúklingum, andast þeir innan nokkurra klukkustunda. Hefur hann „spáð fyrir“ um 50 andlát.
Spádómsgáfa Óskars þykir með svo miklum ólíkindum að aðstoðarprófessor við Brown Háskóla hefur skrifað um hann lærðar greinar í virt tímarit á borð við New England Journal of Medicine. Sú fyrsta birtist árið 2007 þegar hann hafði hjúfrað sig utan í 25 sjúklinga sem allir létust skömmu síðar. Nú hefur Óskar tvöfaldað þann fjölda og á næstu dögum kemur út bók um þennan einstaka kött.
Á daginn eyðir Óskar tíma sínum á hjúkrunarheimilinu þar sem hann flakkar á milli herbergja. Hann staldrar stutt við nema ef svo vill til að einhver sjúklingurinn á nokkrar klukkustundir ólifaðar. Þá stekkur hann upp í sjúkrarúmið og hjúfrar sig upp að sjúklingnum. Ef hann hins vegar kemst ekki inn í herbergi þeirra sem eru að deyja, eyðir hann löngum tíma fyrir utan herbergið og klórar í hurðina.
Eitt sinn gerðist það að hjúkrunarfræðingar á heimilinu settu Óskar í kjöltu sjúklings sem þeir töldu að væri að deyja. Hann gaf hins vegar lítið fyrir það og strunsaði út úr herberginu og settist í kjöltu annars sjúklings. Kom í ljós að sá sjúklingur dó síðar um kvöldið, en sjúklingurinn sem hjúkrunarfræðingarnir töldu að væri að deyja lifði í tvo sólarhringa í viðbót.
Dr. David Dosa, sem fylgst hefur með atferli Óskars, er orðinn svo sannfærður um spádómsgáfu kattarins að hann hringir í aðstandendur þeirra sjúklinga um leið og hann stekkur upp í rúm þeirra. Fimm aðrir kettir eru á heimilinu og sýnir enginn þeirra sömu hegðun og Óskar. Dr. Dosa segir aðstandendur mjög þakkláta fyrir að Óskar hafi eytt síðustu stundunum með hinum látnu á dánarbeðinu.
Heimild: Pressan - 02. feb. 2010
1 ummæli:
Það hefur verið vitað frá örófi alda að kisur eru mjjög vitrar og hafa mikið innsæi, þess vegna er sagt að þær hafi níu líf en einhverra hluta vegna hefur þetta gleymst í nútíðinni en er að koma aftur. Það er ekkert endilega að hinar kisurnr á heimilinu hafi ekki haft sömu hæfileika, þetta var bara hlutverk Óskars.
Skrifa ummæli
Athugasemdir: