þriðjudagur, 3. ágúst 2010

Sjö ára málari slær í gegn

Merkilegt er þetta með unga málarann í Bretlandi, Kieron, sem málar allt að 6 myndum á viku, sem öllum hefur verið líkt við verk eftir málarann Monet. Allt þar til fyrir 2 árum síðan málaði hann fátt annað en myndir af risaeðlum sem foreldrar hans teiknuðu fyrir hann, en svo gerðist það allt í einu þegar fjölskyldan fór í frí til Cornwall þar í landi, að hann hreifst af hafnarsvæðum á svæðinu og fór allt í einu að mála furðulega vandaðar myndir af bátum þar. Málverkasalar segja hann vera líklega "það heitasta" hjá málverkasöfnurum í dag, hann sé impressionisti án þess að vera of óhlutlægur. Málverkin hans seljast jafnharðan og þau eru tilbúin, og eru keypt af fólki út um allan heim. Sem stendur eru meira segja um 700 manns á biðlista eftir að fá að kaupa málverkin, sem eru heldur ekkert á gjafverði, sum hafa selst á allt að 1,5 milljónir króna. Listasérfræðingum ber saman um að drengurinn sé mörgum árum undan í hæfileikum sínum, miðað við aldur.
Svona tilvik eru svo sem ekki alveg óþekkt í hinum ýmsu listgreinum, þegar börn fæðast með óvenju mikla og þroskaða hæfileika á einhverju sviði, líkt og að þau séu einungis að rifja eitthvað upp sem þau hafa unnið við eða þekkt vel áður.
En hver er skýringin? Þar vefst mönnum tunga um tönn, svo sem eðlilegt má teljast, en ýmsar spurningar vekja svona tilvik upp.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: