Að rita orð og setningar með hugarorkunni einni saman virðist vera hreinn og beinn vísindaskáldskapur en nú hefur komið í ljós að þetta er ekki svo fjarlægur draumur ef marka má rannsóknir taugasérfræðinga og vísindamanna við Mayo Clinic í Flórída í Bandaríkjunum.
Vísindamennirnir voru að vinna með tilraun til að greina virkni flogaveikiskasta með því að tengja rafskaut við höfuð sjúklinga. Í tilrauninni var ákveðið að tengja rafskautin með skurðaðgerð beint við heilabörk sjúklinganna til að fá áreiðanlegri niðurstöður. Við tilraunina kom í ljós að þegar sjúklingurinn sá fyrir sér í huganum mynd af bókstaf komu breytilegar upplýsinar fram við hvern staf sem gaf vísindamönnunum þá hugmynd að stilla hugbúnaðinn að heilabylgjum hvers sjúklings og kortleggja stafrófið með upplýsingunum sem komu frá honum.
Þær tilraunir leiddu til þess á endanum að í hvert skipti sem viðkomandi ímyndaði sér ákveðinn bókstaf birtist hann á tölvuskjánum.
Tilraunirnar gefa fyrirheit um að í náinni framtíð verði hægt að hjálpa um það bil tveimur milljónum fatlaðra einstaklinga í Bandaríkjunum sem í dag þurfa verulega aðstoð við að sinna einföldustu verkum.
Þannig má sjá fyrir sér að hægt verði að stjórna til dæmis ýmsum raftækjum, hurðum og farartækjum með þessari tækni þegar á líður.
Sunnudagur 27. desember 2009 kl 20:35
Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: