
Breskur lögreglumaður setti sig í samband við sérfræðing í fljúgandi furðuhlutum eftir að hann sá geimverur athafna sig á akri í Wiltshire á Englandi í júlí í sumar. Nokkrum dögum áður höfðu birst torkennilegir hringir á akrinum en slíkir hringir hafa birst, að því er virðist, fyrirvaralaust á ökrum víðsvegar um Bretland.
Lögregluþjónninn, sem var ekki á vakt umrætt kvöld, segist hafa stöðvað bíl sinn þegar hann kom auga á verurnar á akrinum. Hann segist hafa reynt að kalla á þær en þær hafi virt hann að vettugi. Hann hafi því ákveðið að reyna að nálgast þær en þá hafi nokkuð einkennilegt gerst, að sögn Andrew Russell, sérfræðingi í fljúgandi furðuhlutum.
„Hann sagði: „Þegar ég fór út á akurinn litu þær upp og hlupu í burtu. Þær hlupu hraðar í burtu en nokkur manneskja er fær um. Ég leit undan í eina sekúndu og þá voru þær horfnar. Ég varð mjög hræddur og fékk í kjölfarið gríðarlegan höfuðverk“,“ segir Russell um upplifun lögregluþjónsins. Hann bætir við að höfuðverkurinn hafi stafað af hátíðnihljóði sem verurnar gáfu frá sér.
Lögregluþjónninn hefur ekki verið nefndur á nafn og neitar lögreglan í Wiltshire að tjá sig um atvikið þar sem lögreglumaðurinn var ekki á vakt umrætt kvöld. Andrew Russell er þó ekki í nokkrum vafa um að verurnar á akrinum í Wiltshire í sumar hafi verið úr geimnum.
Heimild: dv.is - Fimmtudagur 22. október 2009,
og Daily telegraph
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: