laugardagur, 29. ágúst 2009

Ýmsilegt kemur í gegnum drauma

Draumar okkar eru margslungnir og eflaust er langt frá því að fólk skilji þá til hlýtar eða átti sig á því hvernig þeir eru til komnir. Sumir varða dagleg viðfangsefni, aðrir framtíðina eða einhver erfið úrlausnarefni.
Einu sinni las ég um nokkuð merkilega reynslu rúmlega fimmtugrar konu í þessum efnum, þegar hún var að ganga í gegnum erfitt tímabil í lífi sínu. Hún var nýflutt á nýjan stað og sér ókunnugt umhverfi, nýskilin við kærasta sinn, sem vildi ekki halda sambandi þeirra áfram. Hún hafði bitið það í sig að það myndi enginn annar vilja hana og hún gat ekki rifið sig upp úr þessum hugrenningum sínum, og var eiginlega orðin hálfföst í þeim. Svo fær hún þá hugmynd að eina ljósið út úr vandræðum sínum og ómögulegheitum sé að fara í lýtaaðgerð. Og hún varð svo ákveðin í því að hún hóf þegar að spara fyrir aðgerðinni, kanna hvað væri í boði á þeim vettvangi og hafði meira að segja samband við ráðgjafa um þau mál. En svo dreymdi hana dálítið sérstakan draum eina nóttina. Hann var mjög einfaldur, henni þótti hún vera að labba um í myrkvuðu herbergi. Hún átti erfitt með að trúa því hversu gjörsamlega tómt það var, engin húsgögn til að rekast á, engan andvara eða gust að finna, hún fann ekki einu sinni veggi. Hún gekk bara og gekk, fram og aftur í algjöru myrkri. En svo allt í einu varð henni litið niður og sá einhverjar hendur. Það næstum glóði af þeim birta og þær virtust vera svo mjúkar og hreinar. Hana langaði til að strjúka þeim og snerta, en þegar hún nálgaðist þær, þá áttaði hún sig á því að þetta voru hennar eigin hendur. Hún virti þær fyrir sér með aðdáun, og fannst að þær væru með því fallegra sem hún hefði nokkurn tíma séð. Þá fór hún að sjá handleggina sína líka, síðan færðist sýnin upp á axlir, brjóst, maga og niður eftir fótum hennar. Þetta var eins og hún væri að sjá líkama sinn í fyrsta skipti og að hann væri það eina sem til væri og sæist þarna í myrkrinu. Hún gat ekki gert neitt annað en staðið þarna og drukkið í sig þessa mynd.
Þegar hún vaknaði svo upp frá drauminum var hún grátandi. Hún hafði orðið fyrir miklum áhrifum af honum og fannst sem henni hefði verið sýnt hvað það væri í raun, sem virkilega og mestu máli skipti. Líkami hennar væri fallegur, heilbrigður og eðlilegur og hún ætti að gefa sér tíma til að virða hann fyrir sér, og meta hann að verðleikum. Hún hætti við að fara í gegnum lýtaaðgerðina og draumurinn veitti henni nýtt sjálfsöryggi til þess að breyta lífi sínu.
Þetta er forvitnilegt dæmi um það hvernig draumar geta haft áhrif, og oft getur verið full ástæða til þess að taka eftir þeim skoða hvort þeir eru fram komnir sem ábending til okkar eða árangur innri úrvinnslu undirmeðvitundarinnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: