laugardagur, 29. ágúst 2009

Verndarengillinn


Nýlega las ég frásögn konu, sem var á barnsaldri þegar síðari heimsstyrjöldin geisaði. Hún átti heima í London og var fjögurra ára gömul þegar atburðurinn átti sér stað. Hún var með skarlatssótt og lá á sjúkrahúsi. Loftárásir Þjóðverja á borgina voru í hámarki, og var það daglegur viðburður að heyra sprengjurnar falla allt í kring. Dag einn var hún úti á svölum ásamt öðru barni og nokkrum hjúkrunarfræðingum, þegar þau heyrðu og sáu sprengju falla til jarðar beint fyrir ofan sjúkrahúsið og lenda á því. Á augabragði hafði hjúkrunarfræðingur gripið stúlkuna, þrýst henni í fang sér og stokkið á bak við súlu, sem þar var. Þegar sprengjan sprakk kom fyrst öskrandi rok með miklum hita í kjölfarið og síðan hvellurinn. Og eins og konan segir, þetta hljómar kannski eins og hversdagsleg saga úr stríðinu, nema fyrir þá staðreynd, að hún, fjögurra ára barnið, skynjaði gríðarstóra englavængi og aðra veru fyrir aftan hjúkrunarfræðinginn. Hún sá ekki andlit verunnar en vissi að þetta væri verndarengill, þar sem bæði hún og hjúkrunarfræðingurinn sluppu við öll alvarleg meiðsl, og það jafnvel þó bakið á hjúkrunarkonnuni sneri alveg óvarið mót sprengningunni. Loftið fylltist af fljúgandi glerbrotum og varð dreng að bana og nokkrar hjúkrunarkonur særðust alvarlega. Allt frá þessari stundu hefur þessi kona trúað á verndarengla og finnst hún vera vernduð alla tíð. Þær eru til glettilega margar, sögurnar af verndarenglum í ýmsu myndum, sem hafa gripið inn í á ögurstundum, og er nokkuð klárt að fótur er fyrir þeim flestum. Hvað það er sem ræður því hvenær og hvort slíkar verndarverur grípa til athafna í efnisheimi er svo aftur risastór spurning, sem okkur jarðbundnum sálum er kannski ekki á færi að svara á þessu stigi, en áreiðanlega stendur hún öllum til boða þessi hjálp, ungum sem öldnum, háum sem lágum, ríkum sem fátækum. Það er eitt af þessum mörgu og stórkostlegu lögmálum tilverunnar. Það skiptir líka máli hvernig lífinu er lifað, á hvora vogarskálina við söfnum lífsgullinu, ef það hefur farið meira í jákvæðu skálina, þá kannski gengur bæði betur og fyrr að veita hjálpina. Má ekki segja að það sé eiginlega borðliggjandi lögmál?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: