Litir ráða miklu meira um líðan okkar og tilfinningar en séð verður í fljótu bragði.
Ekki er víst að öllum verði hugsað til þess hversu litrík veröldin okkar er, í raun og veru. Hugsið ykkur ef hún væri bara öll grá! Sjálfsagt væri lífið þá aðlagað því, en öllu snautlegra væri það, a.m.k. ef lífverurnar væru sér meðvitaðar um hinn möguleikann.
Það er nokkuð ljóst, að ekkert í veröldinni er þar án tilgangs. Það, sem ekki hefur tilgang, eyðist einfaldlega eða hverfur, vegna þess að ekkert verður til þess að halda því við.
Og áreiðanlega er það svo með litina í öllu og á öllu í okkar heimi. Þeir eru okkur klárlega mun mikilvægari en við gerum okkur grein fyrir, enda má segja að þeir séu okkur nánast í blóð bornir, frá fyrstu stund í jarðlífinu.
Þeir sem slíkt skynja, hafa bent á að litirnir gefa frá sér tíðni, mismunandi eftir því hverjir þeir eru, og sú tíðni getur haft áhrif á andlega og líkamlega líðan okkar, t.d. gert okkur ýmist döpur eða glaðlynd.
Til gamans má nefna helstu kenningar um áhrif lita, m.a. þær að ef maður er orkulaus eða linur, þá sé gott að umvefja sig rauðum lit, borða rauða ávexti, eins og t.d. jarðarber, papriku o.þ.h. Það gæti líkað hjálpað til við að ýta frá krankleikum vetrartímans. Einnig er ráðlegt að klæða sig í rauð föt, í sama tilgangi.
Blái liturinn er litur sannleika, friðsældar og samræmis og er góður til þess að róa hugann. Kælandi eiginleikar hans róa og vernda í spenntum aðstæðum, þar sem pirringur er. Sagt er að gott sé að sofa á bláum kodda ef maður vill fara í hugarferðalög eða dreyma dulræna drauma. Blár trefill getur líka auðveldað samskipti við annað fólk.
Gulur litur getur hjálpað til við hugsun og hugarstarfsemi. Hann örfar hæfileika til ræðu og ritunar, og ef fólk málar skrifstofu sína í gulum lit eða setur gular páskaliljur við tölvuna hjá sér eða símann, þá er talið nokkuð víst að það nær fram bestu eiginleikum tengdum plánetunni Merkúr, sem gjarnan er tengd gula litnum.
Læt ég þetta nægja um litina að sinni, en ætla, til gamans, að taka fyrir fjólubláan, grænan og appelsínugulan í næstu færslu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: