laugardagur, 29. ágúst 2009

Okkar litríka veröld í annað sinn

Í síðustu færslu talað ég um að taka fáeina liti fyrir í viðbót, um áhrif þeirra og gagn, og skal það gert nú.
Græni liturinn er sagður róandi og friðsæll, í stjörnufræðinni tengdur jarðarmerkinu nautinu, líka peningum og efnislegum gæðum. Ef fólk á í fjárhagserfiðleikum gæti verið reynandi að geyma peningana sína í grænu veski/pyngju, eða fjármálapappírana sína, reikninga og yfirlit, í grænni möppu. Það sakar að minnsta kosti ekki að reyna.
Appelsínugulur er glaðlegur litur. Hann frelsar og losar um tilfinningar, upprætir sjálfsvorkunnar kenndir, minnimáttarkennd, og tregðu til þess að fyrirgefa. Hann örvar hugann, endurvekur áhugann á lífinu; er ágætur gegn þunglyndi og upphefur andann. Hann styrkir ónæmiskerfið og hjálpar til ef meltingartruflanir eru að hrjá viðkomandi, er sömuleiðis til styrktar ef brjóst- og nýrnavandamál eru í gangi. Ef þú vilt hressa þig við á skömmum tíma er reynandi að koma fyrir appelsínugulum púðum í stofunni, til þess að opna svolítið upp í samböndum þínum.
Fjólublár litur tengir þig við þitt æðra sjálf og er einstaklega góður til að létta á vandamálum huga og tauga. Þegar hugað er að litameðferð þá er fjólublár litur jafnvægis, friðar og umbreytingar. Hann stendur fyrir höfuðskepnuna eldinn, og er litur stjörnumerkisins bogamannsins. Hann samsvarar líka trú, mætti og helgi. Fjólublár er upplýsandi litur og gott að mála herbergið, þar sem þú hugleiðir eða stundar jóga, með honum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: