Veröldin er margslungin og nokkuð víst að við þekkjum ekki nema lítið brot af því hvernig hún er samsett og virkar. Afkimarnir eru margir og samsetningarnar í ógreinanlegum fjölda.
Eitt með því sérkennilegra sem ég hef rekist á nýverið, er það sem menn telja sig finna í orðræðum fólks, þegar þær eru spilaðar afturábak. Menn eru sem sagt farnir að skoða og rannsaka það af alvöru sem má finna í tali fólks ef það er spilað í öfuga átt. Þar mun vera að finna heilu orðin og setningar, sem talið er að gefi til kynna raunverulegar meiningar undirmeðvitundarinnar, burtséð frá því sem sagt er í réttu röðinni. Meiningin er sem sagt sú að eðlileg orðaröð sé það sem dagvitundin orðar og gefur frá sér, en það sem birtist í öfugu röðinni sé það sem kemur frá undirvitundinni og þá það sem við meinum innst inni.
Já, það er svo sannarlega margt skrýtið í tilverunni. Sjálfur hef ég ekki haft tök á að gera prufu á þessu, en það gæti verið nógu forvitnilegt.
Það hefur löngum verið talið að margt búi í undirvitund fólks, sem það geri sér ekki alltaf grein fyrir, hún sé bæði dýpri og víðtækari en nokkurn tímann dagvitundin. Og þeir sem hafa gerst sérfræðingar í þessu “afturábak-tali” fullyrða að það eigi sér nánast alltaf stað þegar við tölum. Það sé þannig hægt að finna hulin skilaboð í öllu sem við segjum, með þessum hætti, og hafa sumir gengið svo langt að tala um að þarna sé búið að uppgötva sjálf sjötta skilningarvitið.
Aðrir segja að þetta sé einfaldlega enn eitt formið á mannlegum tjáskiptum. Menn segja að þessar “afturábak” setningar komi fram með reglulegum hætti, að meðaltali á 5-10 sekúndna fresti, og sé eðlilegur framgangur í tali okkar. Sumir halda því líka fram að tungumál okkar séu þannig formuð að í þeim komi fram setningar bæði afturábak og áfram, en séu sagðar allar í einu.
Báðar tegundir setningana er algjörlega samtengdar og ekki er hægt að skilja aðra án hinnar. Og samkvæmt þessu sé ekki hægt að ná algjörlega öllu því sem ræðumaður er að segja nema hlusta á báðar setningategundirnar. Dagvitundin stjórnar því sem talað er blátt áfram og eðlilega, en undirvitundin stjórni því sem birtist í öfugri röð, og það sé í rauninni þar sem ræðan fer fyrst að verða áhugaverð. Það þýðir sem sagt, að ef einhver lýgur í réttri röð, þá sé það sannleikurinn sem birtist afturábak. Er það samkvæmt kenningunni að undirvitundin kunni ekki að ljúga. Telja sumir að börn t.d., byrji á því að tala afturábak áður en þau ná því að tala áfram. Í stöðugu babbli frá fjögurra mánaða barni megi t.d. greina orð eins og “halló” greinilega, ef það er spilað afturábak.
Þekkt er að svona umræða hefur stundum komið upp í tenglsum við tónlistargeirann og hljómsveitir verið ásakaðar um að vera með dulin skeyti í textum sínum. Eitt frægasta slíkt dæmi er frá sjöunda áratugnum, þegar námsmaður nokkur staðhæfði að í einu lagi Bítlanna, Revolution 9, væri að finna dulin skilaboð, töluð afturábak, sem staðfestu að Paul McCartney væri látinn. Hann hringdi í plötusnúð með þessar upplýsingar, og sá tók sig til og spilaði lagið aftur á bak, og mun þá hafa heyrt þar þessa setningu “Turn me on, dead man,” sem mætti útlista lauslega sem “komdu mér af stað, dauði maður”. Og það var náttúrlega eins og við manninn mælt, eftir þetta fór menn að spila ótal lög afturábak og finna þar alls konar skilaboð eða setningar.
Of langt mál yrði að fara lengra út í þetta hér, en það munu vera orðin einhver dæmi um það að sálfræðingar séu farnir að prófa þessa aðferð í meðferðum sínum. Kannski rétt þó að geta eins þess nýjasta í þessum efnum, og sem varðar George Bush blessaðan, forseta Bandaríkjanna. Mun það vera tekið úr ræðu, sem hann hélt tveimur vikum áður en Bandaríkin réðust inn í Írak. Þessi setning, sem birtist í ræðunni þegar hún er spiluð afturábak, var þessi: “Við munum sitja í Bagdad”. Sem útleggst þá sem svo að hann hafi verið búinn að gera upp hug sinn í því efni löngu áður en opinber ákvörðun var tekin.
Svo lesandi góður, kannski er þetta skemmtunarinnar virði, ef þú hefur tæki til þess að spila hægt afturábak. Kannski þú leyfir okkur þá að lesa um árangurinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: