sunnudagur, 30. ágúst 2009

Um 60% Breta trúa á dulræn fyrirbrigði samkvæmt rannsókn

Flestir Bretar trúa á dulræn fyrirbrigði eins og fyrirboða og hugsanalestur ef marka má nýja breska könnun. Svo virðist sem að sex af hverjum tíu Bretum trúi á dulræn öfl og yfir helmingur þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðu að þeim hefði dreymt fyrir eða fengið fyrirboða um atburð sem síðar varð að veruleika.

Það var tímaritið Readers Digest sem stóð að könnuninni sem 1.005 fullorðnir Bretar tóku þátt í. Samkvæmt könnuninni sagðist einn af hverjum fjórum hafa vitað að fjölskyldumeðlimur hafi verið veikur eða í vanda áður en að viðkomandi fjölskyldumeðlimur sagði þeim frá því.

Þá héldu 43% þátttakenda því fram að þeir hafi annaðhvort lesið hugsanir annarra eða þá að aðrir hafi lesið huga þeirra.

Tæplega 70% sögðust skynja það þegar einhver væri að horfa á þá jafnvel þótt að þeir sjái ekki þann sem horfir.

Litlu færri, eða 62%, segjast vita hver sé að hringja áður en þeir svara símanum.

Þá þykir það dularfullt að 13% haldi því fram að þeir geti haft áhrif á vélbúnað eða raftæki án þess að koma beint við þau.

Ef litið er á kynin þá eru konur líklegri til þess að trúa á hið yfirskilvitlega heldur en karlar. Rúmur helmingur allra karla sem voru spurðir, en karlar voru 45% af lokaúrtakinu, hafði hinsvegar dreymt fyrir eða fengið fyrirboða um atburð.

Þrátt fyrir að svo margir haldi því fram að þeir hafi upplifað yfirskilvitlega hluti þá telja aðeins 9% Breta sig búa yfir dulrænum hæfileikum.

Simon Bacon, sem er miðill og fyrirlesari við Dulrannsóknarháskólann í London, segir að margir hugsi sér gamla konu í kjól með kristalskúlu þegar það heyrir orðið miðill. Það sé hinsvegar ekki eitthvað sem fólk nái að tengja sig við.

Þriðjungur kvenna hefur hinsvegar leitað til miðils og rúmur helmingur þátttakenda trúir því að draugar eða andar þeirra liðnu geti haft samband við hina lifandi. En tæp 20% segjast hafa séð draug.

Heimild: MBL 26.05.2006

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: