Eitt af því sem andlega sinnað fólk hefur gaman af að velta fyrir sér, er möguleikinn á fyrri lífum hverrar sálar. Afar skiptar skoðanir eru um það meðal fólks hvort þetta sé tilfellið, að fólk fæðist oftar en einu sinni, t.d. hér á jörð, og er þá reyndar ekki bara talað um jörðina í þessu tilfelli, ýmsir vilja meina að sálin "fæðist" í hinar ýmsu vistarverur veraldarinnar, allt eftir því hvaða þroska ætlunin er að vinna í. Jarðlífið, eða efnisheimurinn, sé einungis ein þessara vistarvera. Og þannig finnst mér líklegt að málið sé vaxið. Það væri ekki rökrétt, ef, að loknu jarðlífinu, sálin færi bara yfir á "sumarlandið" og yrði þar svo til eilífðar í dýrð og dunandi völsum. Til hvers var þá baslið í jarðlífinu? Var ekki eins gott að vera bara á sínum stað, þar sem verið var áður, í stað þess að leggja þetta allt á sig? Það myndi ég nú telja. Fáum held ég nefnilega, að blandist hugur um það að sálin er eílíf og heldur áfram tilveru sinni og ferðalagi eftir að jarðlíkaminn hefur sungið sitt síðasta. Vísbendingarnar og staðreyndirnar eru alltof margar til þess að hægt sé að skoða málið öðruvísi.
Sumt fólk gerir það fyrir forvitni sakir, að reyna að grennslast fyrir um fyrri líf sín, og þá gjarnan hér á jörð. Til eru þeir sem eru þeirrar skoðunar að það þjóni ekki miklum tilgangi að stunda slíkt, þú sért í þessum aðstæðum og að fást við þín verkefni, og það breyti litlu þó þú grafir upp einhverja vitneskju um fyrri líf. En manneskjan er nú einu sinni forvitin og hugsar svo sem ekki alltaf um nytsemdina þegar hún grennslast fyrir um hluti sem henni leikur forvitni á að fá að vita meira um.
Og hvernig leitar maður svo upplýsinga um fyrri líf? Auðveldasta leiðin er sjálfsagt að leita aðstoðar miðla, og þá kannski helst svo kallaðra dáleiðslumiðla, sem leiða þig áfram í leitinni. Svo er hægt að gera eigin tilraunir.
Þeir sem leiðbeina um slíka hluti benda fólki gjarnan á að byrja á að fá sér blað og penna og búa til tvo dálka, annars vegar dálk sem héti "Það sem mér líkar" og hinsvegar dálk sem nefndist "Það sem mér líkar ekki". Fyllið svo út undir dálkunum það sem ykkur finnst við eiga, og merkið hvert atriði með einum eða fleirum plúsum ("+") sem gefa til kynna hversu ákaft ykkur finnst um viðkomandi atriði. Ef þið eruð t.d. afar lofthrædd þá mynduð þið kannski setja fjóra plúsa við það ("++++").
Að þessu loknu skulið þið setjast niður þar sem hægt er að vera án truflunar, gjarnan setja róandi slökunartónlist í spilarann, og skrifa nokkrar línur um af hverju ykkur líkar eða líkar ekki eitthvert atriðið. Fyrst koma kannski bara eitt eða tvö orð upp í hugann, en svo gæti farið að heil saga að birtist. En munið, að ef ykkur fer að líða illa, þá skulið þið hætta umsvifalaust. Ekki er víst að allt liðið sé fallegt eða án sterkra og erfiðra tilfinninga. Þá er um að gera að segja ákveðið við sjálfan sig: "ég sleppi atburðum þessa skeiðs og held áfram". Ekki dvelja um of við liðna atburði, horfið á þetta eins og leikrit. Hugsanlegt er að þeir geti sagt þér eitthvað um þig í dag.
Eftir stutta stund í hugleiðslu og umhugsun um fyrri líf, er um að gera að hreyfa sig vel, fá sér kaffibolla, fara í gönguferð, tala við aðra um það, því það getur gert mörgum gott.
Með æfingunni getur verið að hægt sé að fá nokkuð góða mynd af því liðna, og losa sig undan kannski einhverju sem hefur fylgt sálartetrinu og ekki náð að leysast út. Hver veit. Það er með þetta eins og allt annað, það er gott að reyna að sætta sig við það sem gerst hefur, losa um það, fyrirgefa og senda það út í víðáttu alheimsins.
Ef þú, sem þetta lest, átt sögu um fyrri líf, eða leit að því, væri ekki úr vegi að leyfa okkur að heyra og lesa. Þá smellirðu hér á "add comment" fyrir neðan og sendir inn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: