Efnisheimurinn er takmörkum háður en býður þó upp á ýmsar tengingar út í hina frjálsu víðáttu.
Örn Ingi Gíslason á Akureyri er listamaður af guðs náð, eins og sagt er og hefur ýmsilegt prófað í lífin að sögn.
Skemmtilegt viðtal er við hann í Morgunblaðinu 17. janúar s.l., sem fjallar m.a. um almennt peningaleysi hans eftir að hann gerði listina að aðalstarfi sínu, og hvernig honum var, að því er hann telur, oft eftir dulrænum leiðum, reddað um peninga þegar mikið lá við. Eitt sinn t.d. vantaði hann peninga til þess að komast suður með myndir á sýningu sem hann hann hafði skipulagt. Hann átti þegar til kom, ekki aura fyrir bensíni og öðrum kostnaði sem ferðalaginu til Reykjavíkur fylgdi. Nóttina áður hafði hann þó dreymt að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, ferðin yrði fjármögnuð með sama hætti og gert hefði verið fyrir hann áður.
Klukkan fjögur á brottfarardaginn hafði ekkert ræst úr málum og var hann farinn að hafa talsverðar áhyggjur af úrlausn þeirra. Þá skeður það að til hans hringir maður og spyr hvort hann ætti hugsanlega mynd sem hann gæti keypt. Örn Ingi segir nánar frá þessu í viðtalinu, en í stuttu máli gerðist þetta þannig að maðurinn sem hringdi, hafði lagt sig upp í sófa þegar hann kom heim úr vinnunni, og dottaði í smá stund en hrökk svo upp með andfælum og fannst hann verða að eignast mynd eftir Örn Inga. Hafði hann engar frekari vöflur á en hringdi í listamanninn og var búinn að kaupa mynd hjá honum skömmu síðar. Örn Ingi endar viðtalið með þessum orðum:
"Það er miklu meira í loftinu heldur en útvarpsbylgjur; það er til yfirskilvitlegt afl sem við getum nýtt okkur. Í bankanum sat ég stundum og skrifaði, horfði niður og fór að hugsa um einhvern mann og þegar ég leit upp gekk hann inn í bankann. Þetta gerðist ekki einu sinni eða tvisvar, heldur mörg þúsund sinnum. Sumir hafa einhvers konar skynjara eða gervihnattaloftnet á bak við eyrað!"
Enn eitt dæmið um veröldina handan tíma, efnis og rúms, sem flestir skynja en gera sér misjafna grein fyrir í daglegu amstri sínu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: