sunnudagur, 30. ágúst 2009

Draumarnir okkar

Draumaráðningar eru vinsæl iðja hjá mörgum, og er áreiðanlega nokkuð misjafnt hvernig fólk les í táknkerfi draumanna. Þar er enda margt sem getur haft áhrif á merkinguna, en oftast eru einhver grunntákn til staðar, sem annað í draumunum byggir svo á. Sem dæmi mætti nefna að tunglið merkir dulræna þætti hjá dreymandanum, hjólhýsi breytilega möguleika í lífinu, þ.e. eitthvað sem þú getur haft áhrif á eða fært til, bein tákna grundvöll þess sem um er verið að fjalla, veikur eða sterkur, eftir atvikum, hrafn/ar eitthvað dularfullt, þeir bera með sér visku og þekkingu og fréttir sem þeir hafa nálgast einhvers staðar annars staðar. Tákn hvers dreymanda fara áreiðanlega líka mikið eftir reynsluheimi hans, og hvern hug hann ber til þess sem í táknunum býr. Þannig getur draumatákn merkt sitthvað fyrir tvo ólíka dreymendur. Er þá ekki öruggast að ráða drauma sína sjálfur? Sumir hafa farið þá leið að halda dagbók um það sem þá dreymir og merkja við hvort og hvernig draumarnir hafa ræst. Þannig má læra að þekkja og kynnast sínum eigin draumatáknum. Eitt er þó næsta víst, að draumar eru ekki bara afleiðingar meltingartruflana, eins og sumir vilja meina, þeir eru oft innsýn inn í einhvern annan heim vitundarinnar, sem við ekki þekkjum til fullnustu ennþá.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: