sunnudagur, 30. ágúst 2009

Sjónarvottur að eyðingu Sódómu og Gómorru?

Sagt hefur verið frá því í erlendum blöðum að Biblíusagan um eyðingu Sódómu og Gómorru hafi fengið óvæntan stuðning vegna tákna á Súmerískri leirtöflu. Að sögn tveggja velmetinna vísindamanna, Alan Bond og Mark Hempsell að nafni, þá er þessi tafla, sem hefur valdið fræðimönnum heilabrotum í meira en heila öld, með lýsingu sjónarvotts að því þegar loftsteinn rakst á jörðina og drap þúsundir manna. Atburðurinn er talinn tengjast miklu jarðfalli sem vísindamenn hafa hingað til tengt við hinn svokallaða Köfels árekstur.

Að sögn blaðanna segja vísindamennirnir, sem báðir eru eldflaugasérfræðingar, að leirtaflan, sem þekkt hefur verið sem Hnatthvolfið, eða eitthvað álíka, hafi verið uppgötvuð af fornleifafræðingnum Henry Layard á Viktoríutímanum í rústum konungshallarinnar í Nineveh. Fyrrgreindir vísindamenn segja að taflan sé afrit frá því um 700 f. Kr. af mun eldri töflu.

Annar helmingur töflunnar sýnir stöðu reikistjarnanna og ský, en hinn helmingurinn feril einhvers hlutar sem líkist einna helst steinskál sem þýtur yfir himininn. Hluturinn er sagður koma heim og saman við loftstein af svokallaðri Aten-týpu, sem ferðast í kringum sólina í nánd jarðarinnar. Ferill hans myndi hafa stefnt beint á Otz dalinn. Annar vísindamannanna, Mark Hempsell, segir að hann hafi komið inn undir mjög lágu horni, um það bil 6 gráðum, og síðan brotlent á fjalli sem heitir Gaskogel, um það bil 11 kílómetrum frá Köfels.
Hann lýsir því hvernig hluturinn hafi væntanlega sprungið á leið sinni niður í dalinn og þegar frá leið orðið að biblíulegum atburði.

Frásögn Gamla Testamentisins lýsir því hvernig óforskömmuð hegðun íbúanna gekk fram af Abraham sem bjó sjálfur annarsstaðar. Hann kom engu að síður til borgarinnar samkvæmt beiðni tveggja engla til að vara íbúana við yfirvofandi dauða, og líka vegna frænda síns Lots, sem, þrátt fyrir mótmæli Abrahams, hafði valið að búa í Sódómu.

Lot og fjölskyldu hans var að lokum bjargað áður en að endalokunum kom, en þó hún hefði verið vöruð við því, þá leit kona hans tilbaka á hamfarirnar, og er sögð hafa breyst í saltstólpa við það. Sumir hafa haldið því fram að það að breytast í saltstólpa kunni að vera lýsing á því sem gæti komið fyrir þann sem væri of nálægt kjarnorkusprengingu.

Vísindamennirnir Bond og Hempshell, halda því fram að sprengingin myndi hafa myndað risastórt sveppalaga ský og þakið loftið ryki á margra ferkílómetra svæði.
Köfels atburðurinn er almennt talinn hafa átt sér stað mörg þúsund áru fyrr en dagsetningin 3123 f.Kr., sem nefnd hefur verið áður, en Bond og Hempshell segja að sú dagsetning sé misreiknuð vegna spilltra sýnishorna sem notuð voru í eldri greiningum.

En eins og við er að búast, hafa þessar fullyrðingar Bonds og Hemsells orðið umdeildar. Úrtölumenn segja erfitt að trúa því að forsögulegir stjörnufræðingar hafi verið svona áhugasamir himinskoðarar. En hvort sem Bond og Hempsell hafa rétt fyrir sér eða ekki, þá verður ekki um það deilt, að vísindin hafa úr afskaplega litlum heimildum að moða þegar meta skal raunverulega fræðigetu manna á forsögulegum tíma.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: