sunnudagur, 30. ágúst 2009

Dulræn frétt úr daglega lífinu

Þetta byrjaði þannig að við urðum vör við að ýmislegt smálegt fór að hverfa hér niðri á lager, oft eitthvað sem við starfsfólkið áttum eða vorum að nota, eins og til dæmis splunkunýr farsími konunnar minnar, Hafdísar Þorleifsdóttur. Einn daginn varð hún vör við stelpu á sveimi hér, og hún var ekki þessa heims. Síðan þá höfum við litið svo á að hún sé að stríða okkur þessi stelpa, með því að láta hluti hverfa," segir Haukur Ingi Jónsson, annar eigandi verslunarinnar Gyllta kattarins sem er til húsa í miðbæ Reykjavíkur. Haukur Ingi er mjög sáttur við draugastelpuna sem virðist halda til í búðinni.
„Skúli Lorenz frændi minn og miðill kom í heimsókn hingað til okkar í búðina og við vorum ekkert að segja honum frá því sem Hafdís hafði orðið vör við. En við fórum á miðilsfund með honum um kvöldið og þá sagðist hann hafa séð stúlku í stiganum hér í búðinni. Hann sagði hana vera um tíu ára og hann tók það fram að hún væri ekki íslensk. Hann sagði að henni liði vel hérna og að hún vildi fá að vera hér áfram."
Eftir þessa staðfestingu miðilsins fór hrollur um sumar starfsstúlkurnar.
„Við vorum fyrst skíthræddar við að fara einar niður á lager, hlupum stigann í einum spretti þegar við áttum erindi þangað," segir Ása Ottesen verslunarstjóri og stílisti í Gyllta kettinum og hlær að eigin ótta.
„En fljótlega komust allir að því að þessi ótti var alveg ástæðulaus, því að þetta stelpuskott er besta skinn og meinlaus, þó hún sé svoltítill prakkari í sér. Henni er velkomið að fikta hér í öllu og vera með okkur," segir Haukur Ingi og bætir við að daginn eftir miðilsfundinn hafi stelpan í stiganum minnt rækilega á tilvist sína.
„Þá stóð tjaldið sem hangir fyrir hurðaropinu sem skilur að verslunina og lagerinn, beint fram, nánast um níutíu gráður, eins og það kæmi ósýnilegt rok eða kraftur innan frá sem svipti því svona upp. Þetta varði í nokkra daga og hefur aldrei gerst, hvorki fyrr né síðar og okkur þótti þetta stórundarlegt."

Kom kannski með fatasendingu
Haukur segir stelpuna á vissan hátt taka tillit til verslunarrekstursins.
„Hún má eiga það að hún er ekki að þvælast um búðina á opnunartímum, heldur finnum við fyrst og fremst fyrir henni eftir lokun. Þá er alveg sérstaklega góður andi hér inni. Ró leggst yfir allt og þá er gott að setjast í sófann og slaka á eftir erilsaman dag. Þá er ekkert verra að vita af stelpunni hérna hjá okkur."
Þó þau viti að stúlka þessi sé ekki íslensk, þá vita þau ekki frá hvaða landi hún kemur. „Hún gæti hafa komið með einhverri fatasendingunni. En þó svo að við kaupum öll þessi notuðu föt frá Bretlandi, þá eru þau alls staðar að úr heiminum, þannig að stelpan í stiganum gæti þess vegna verið frá Japan. En hún gæti líka hafa verið hér í húsinu áður en við opnuðum búðina, þetta er jú gamalt hús. Henni virðist líða vel innan um allt gamla dótið hér inni. Hér eru allir í sátt við sýnilega og ósýnilega og þeir sem koma hingað hafa gjarna orð á því hvað það sé notalegt að vera hér inni." | khk@mbl.is

Heimild: Morgunblaðið, 4. júní 2008.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Athugasemdir: