Í Fréttablaðinu í nýlega er sagt frá því að erlendur ferðamaður sem tók mynd í Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu í Reykjavík að kvöldi jóladags s.l., hafi séð ókennilegar slæður á myndinni og eru þeir sem um fjalla á þeirri skoðun að þarna sé um "drauga" eða andaverur að ræða. Er viðkomandi mynd jafnframt birt.
Eins og við er að búast rísa óðara ýmsir andstæðrar skoðunar upp á lappirnar og lýsa því jafn ákveðið yfir að þarna sé ekkert um að ræða annað en bilaða myndavél eða gufu upp úr jörðinni.
Og óneitanlega er nokkuð erfitt að mæla gegn því með sannfærandi rökum að þarna sé eitthvað annað á ferðinni.
Það er rétt, sem kemur fram í fréttinni, að víða erlendis hafa menn í félögum sem gefa sig út fyrir að rannsaka svona atriði, haft tilhneigingu til þess að líta á fyrirbrigði svipuð þessum, sem fram hafa komið á myndum við ýmsar aðstæður, sem orkufyrirbrigði er tengist öðrum heimi. Hafa þau þá ekkert endilega verið tengd kirkjugörðum, heldur líka sést inni í húsum og á öðrum svæðum ótengdum kirkjugörðum. Stundum hefur fylgt atvikinu að myndin sé tekin á stað eða stöðum þar sem reimleika hefur orðið vart.
En á meðan að myndirnar eru ekki skýrari en þessi, sem þarna um ræðir, þá er erfitt að segja eitthvað af eða á um sönnunargildi þeirra. Kalt mun hafa verið í veðri þegar myndin var tekin og mætti því alveg eins gera ráð fyrir að þarna sé um andgufu ljósmyndarans að ræða eða jafnvel sígarettureyk frá einhverjum nærstöddum.
Ekkert skal þó um þetta fullyrt hér, en við munum fjalla nokkuð nánar um svona fyrirbæri í næsta blaði af Tíbrá.
Svo kallaðar andamyndir hafa þó alltaf verið til, þar sem myndir af fólki, sem ekki var vitað til að væri á staðnum þegar myndin var tekin, birtast inni á þeim. Tíbrá hefur einmitt í fórum sínum eina slíka, sem tekin var s.l. sumar í rústum staðar á Íslandi þar sem miklir atburðir áttu sér stað á 19. öldinni, og þar sést að óvænt hefur komið inn á greinileg mynd af stráklingi, sem enginn kann nokkur skil á.
Við munum birta þessa mynd innan tíðar í tímaritinu Heima er bezt og svo að sjálfsögðu í næsta blaði af Tíbrá, sem væntanlegt er síðar á árinu.
Í Heima er bezt birtist einnig á síðasta ári ljósmynd sem tekin var árið 1938 af vegagerðarmönnum að vinnu sinni við jökulá í Rangárvallasýslu, en á þessari hafði verið veitt í annan farveg á 17. eða 18. öld, af kunnum galdramanni, sem talinn var vera, og notaði hann jafnan gráan kött og ullarreyfi til slíkra verka. Svo sérstakt er það að inni á þessari mynd er að finna, ofan við malarskóflublað eins mannsins, eitthvað sem greina má sem mannsandlit og ofan á því situr köttur, sem reyndar sýnist svartur á myndinni, en gæti sem best verið dimmgrár, því á þessum tíma voru myndir allar í svart/hvítum litum.
Nokkuð sérkennilegt, ekki satt, en merkileg tilviljun samt, ef þær þá eru fyrir hendi.
Og fleiri slíkar myndir hafa birst í Tíbrá, t.d. ein sem tekin var uppi í fjallshlíð fyrir ofan Ólafsfjörð fyrir eitthvað um 20-25 árum síðan. Þar var fólk í berjamó, og settist niður til að borða nestið sitt. Fjölskyldufaðirinn brá upp myndavélinni og tók mynd af hópnum. Við hlið yngstu manneskjunnar á myndinni hafði verið settur hvítur innkaupapoki með höldum, eins og við þekkjum úr matvörubúðunum. Þegar myndin er framkölluð þá er komið inn á myndina stúlkuhöfuð, sem er þannig staðsett yfir pokanum að hann virkar eins og að hann sé kjóllinn hennar, og höldurnar hlýrarnir yfir axlirnar. Þar hafði enginn setið úr efnisheimi, þegar myndin var tekin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: