Afskaplega er það misjafnt hversu vel fólk skrifar, og úr skrift sumra er tæpast hægt að lesa skiljanlegt orð, á meðan aðrir skrifa varla nokkuð án þess að það sé nánast skrautskrifað. Hingað til hefur maður oft getað sagt til um frá hverjum bréf, sem berst með póstinum, er, sér í lagi ef það er frá einhverjum ættingjanum, þar sem maður hefur þekkt skriftina hans. Hver og einn hefur sín séreinkenni í handskrift sinni. Nú verður sífellt sjaldgæfara að maður sjái handskrift fólks, svo einhverju nemi, flestir eru farnir að skrifa texta sinn á tölvur og merkja umslögin með áprentuðum miðum. Og senn kemur líklega að því að við þurfum ekki annað en að lesa það sem við viljum koma á blað, fyrir tölvuna okkar og hún mun sjá um að setja það í staðlað textaform.
En gaman er að velta því fyrir sér, á meðan einhver handskrift sést enn á blöðum, að ef grannt er skoðað, þá er hægt að sjá persónugerð og tilhneigingar fólks út úr skrift þess. Þetta er afar gömul list og ýmsir enn í dag sem iðka hana. Rithönd hvers og eins er alveg einstök, ekki síður en rödd okkar, göngulag, eða fingraför. Þeir sem til þekkja segja að rithöndin geti sagt margt um fólk, t.d. hvort það er opinskátt eða innhverft, hvernig því líður á þeim tíma sem það skrifaði það sem verið er að lesa úr, hvernig sköpunargáfu þess er háttað og hverjir hæfileikar þess ýmsir aðrir eru.
Áður fyrr, og kannski enn, notuðu sum fyrirtæki rithandarsérfræðinga til þess að lesa úr atvinnuumsóknum fólks, í þeim tilgangi að komast nær því að átta sig á hæfileikum viðkomandi. Sérfræðingarnir segja líka að það megi nota lestur úr rithönd til þess að átta sig á því hvar hæfileikar manns liggi, og hvað maður ætti helst að leggja rækt við. Þeir segja jafnframt, sem dæmi um það hvað rithöndin segir til um, að þeir sem hafa stórgerða rithönd séu gjarnan úthverfir í skapgerð og opinskáir. Smágerð rithönd tákni sjálfsíhugulan og greindan einstakling. Rithönd sem hallast til hægri bendi til félagslynds einstaklings, en sú sem hallast til vinstri, þess sem hneigist meira til innri hugleiðinga. Lykkjur í skrift segja til um tilfinningar og kynorku, t.d.
Tilfellið er, að rithönd okkar getur sagt heilmikið um okkur, ekkert síður en framkoma, klæðaburður, og ýmis líkamstjáning.
En þá vaknar spurningin, ef fólk fer að nota tölvurnar sínar nær eingöngu til þess að skrifa texta sinn, hver sem hann er, afþjálfast þá ekki þessi list í takt við minnkandi persónuleika í rithöndinni, og dofnar ekki jafnframt í sama mæli, mælingarstyrkur hans? Stefnir rithandarlestur í það að verða hverfandi listgrein?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Athugasemdir: